Jói pípari heitir Samuel og skuldar skattinum

Sá sem hefur vakið hvað mesta athygli fjölmiðla upp á síðkastið í bandarísku forsetakosningunum er pípulagningamaður að nafni Joe, sem spurði Barack Obama erfiðra spurninga er fjölmiðlar fylgdust með kosningaferðalagi Obama í Ohio. McCain vísaði svo til Joe í sjónvarpskappræðunum sem fram fóru á miðvikudagskvöld. Nú eru hins vegar farnar að renna tvær grímur á Jóa, sem heitir í raun Samuel.

Hinn 34 ára gamli Joe Wurzelbacher, sem er frá Ohio, komst í kastljós fjölmiðlanna þegar McCain tók hann sem dæmi um mann sem muni finna fyrir stefnu Obama í skattamálum. En alls var minnst á píparann 26 sinnum í kappræðunum. 

Nú hefur komið í ljós að Joe hefur hefur engin pípulagningarréttindi og skuldar um 1200 dali í skatt.

Í síðustu viku ræddi Joe við Obama í kjölfar kosningafundar í Ohio. Hann spurði Obama út í skattamál. Joe sagðist vilja stofna pípulagningarfyrirtæki og sagðist óttast það að hann myndi þurfa að greiða hærri skatta ef fyrirtækið þénaði meira en 250.000 dali á ári.

McCain notaði Joe sem dæmi um hinn venjulega verkamann í Bandaríkjunum í kappræðunum sem yrði fyrir barðinu á skattastefnu Obama.

Heitir í raun Samuel og skuldar ríkinu tekjuskatt

Nú hafa bandarískir fjölmiðlar komist að því að fornafn Wurzelbacher er ekki Joe heldur Samuel. Þá er hann ekki með pípulagningarréttindi, en fyrirtækið sem hann starfar fyrir er hins vegar með slíkt leyfi.

Í ljós hefur komið að Wurzelbacher megi ekki starfa í Toledo í Ohio án þess að vera með réttindi, en hann má hins vegar vinna fyrir einhvern sem er með meistarapróf í pípulagningum, eða í nærliggjandi svæðum þar sem ekki er þörf á slíkum réttindum.

Skv. dómsskjölum þá skuldar Wurzelbacher Ohio ríki 1.182,98 dali í tekjuskatt.

Þá hefur Wurzelbacher viðurkennt að hann sé réttindalaus og að hann eigi langt í land með að þéna yfir 250.000 dali.

Pípulagningamaðurinn Joe, sem heitir réttu nafni Samuel Wurzelbacher.
Pípulagningamaðurinn Joe, sem heitir réttu nafni Samuel Wurzelbacher. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert