Eldur kviknaði í öðrum hreyfli Boeing 737-800 farþegaflugvélar þýska flugfélagsins XL Airways í dag þegar vélin var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Antalya í Tyrklandi með 167 farþega um borð. Flugvélin nauðlenti í Belgrad í Serbíu og sakaði engan. Eldurinn í hreyflinum var síðan slökktur.
Að sögn serbneskra fjölmiðla verða farþegarnir fluttir til Þýskalands aftur síðar í dag.
XL Airways var dótturfélag breska ferðaþjónustufyrirtækisins XL Leisure, sem um tíma var í eigu Eimskips en síðan selt. XL Leisure varð gjaldþrota í september og féllu þá 26 milljarða króna ábyrgðir á Eimskip. Rekstri dótturfélaga XL í Þýskalandi og Frakklandi var hins vegar haldið áfram og Straumur fjárfestingarbanki eignaðist þá starfsemi.