Mansalhringur upprættur í Belgíu

Belgíska lögreglan greindi frá því dag að hún hefði upprætt glæpahring sem ætlaði sér að smygla hundruð ólöglegra innflytjenda til Bretlands. Fimmtán voru handteknir í Brussel og nágrenni og fundust um tvö hundruð ólöglegir innflytjendur frá Indlandi í aðgerðum lögreglu snemma í morgun. Einhverjir  Indverjanna höfðu greitt allt að 20 þúsund evrur fyrir flutninginn til Bretlands.

Aðgerðir lögreglu í morgun komu í kjölfar rannsóknar sem staðið hefur yfir í eitt ár á mansali í gegnum Belgíu. Talið er að glæpahringnum hafi tekist að smygla þúsundum manna inn í Bretland á hverju ári, sagði Tim de Wolf, sem kom að rannsókninni. 

Flestir Indverjarnir sem fundust í dag eru karlmenn á aldrinum 15-35 ára en auk þess voru konur og börn í hópnum. Flest þeirra voru frá Punjab héraði og komu í gegnum Moskvu til Belgíu. Bjó fólkið við ömurlegar aðstæður í Belgíu. „Við fundum 24 manneskjur sem hafði verið troðið inn í lítið gluggalaust herbergi," sagði de Wolf, að því er fram kemur á vef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka