Líklegt þykir að fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, repúblikaninn Colin Powell, muni lýsa yfir stuðningi sínum við forsetaframbjóðanda demókrata, Barack Obama, í sjónvarpsþættinum Meet the Press á sunnudag.
Powell hefur sagst mundu gera upp hug sinn eftir að frambjóðendurnir hefðu mæst í öllum þremur sjónvarpskappræðum sínum, en sú síðasta var síðastliðinn miðvikudag. Hann á að koma fram í þættinum Meet the Press á sjónvarpsstöðinni NBC á sunnudag og er talið að hann muni gera grein fyrir ákvörðun sinni þar.
Powell hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Obama þrátt fyrir að Powell og McCain séu góðir vinir, en Powell hefur sagt að ákvörðun hans muni byggjast á öðru og meiru en vinskap.
Það að styðja Obama yrði að mati fréttaskýranda Newsweek óbein en jafnframt kröftug leið fyrir Powell til að tjá gremju og eftirsjá vegna samstarfsáranna með Bush. Hann myndi þar með neita flokksfélaga sínum um stuðning sem þykir hafa svipaðar áherslur og Bush í öryggis- og varnarmálum.
Talið er að með stuðningi svo áhrifamikils repúblikana myndi framboð Obama styrkjast verulega og verða til þess að fá fleiri flokksbræður og -systur til að snúast á sveif með honum.