Sex ára gamall drengur, Cole Puffinburger, fannst skömmu fyrir hádegi í gær heill á húfi í miðbæ Las Vegas en honum hafði verið rænt þremur dögum áður af heimili sínu. Brotist var inn á heimili móður hans og kærasta hennar, þau bundin við húsgögn og drengnum síðan rænt. Afi drengsins var grunaður um að tengjast mannráninu.
Lögreglan í Las Vegas hefur gengi glæpamanna frá Mexíkó, sem einbeitir sér að fíkniefnainnflutningi, grunað um að hafa rænt drengnum. Í fyrstu var afi drengsins, Clemens Tinnemeyer, grunaður um að vera viðriðinn ránið. Hann var handtekinn á föstudaginn en síðan sleppt að lokinni yfirheyrslu.
Samkvæmt heimildarmönnum Associated Press (AP) er ránið talið hafa verið skilboð til Tinnemeyer frá glæpagenginu þar sem það grunar hann um að hafa stolið milljónum dollara í tengslum við fíkniefnainnflutning á amfetamíni. Tinnemeyer hefur komið við sögu lögreglunnar í Las Vegas vegna fíkniefnamála.
Lögreglan í Las Vegas hefur lýst eftir manni frá Mexíkó sem heitir Jesus Gastelum í tengslum við málið. Tinnemeyr á að mæta í yfirheyrslu hjá lögreglu á morgun samkvæmt upplýsingum AP fréttstofunnar.