Forsetaframboð demókratans Baracks Obama aflaði 150 milljóna dala, jafnvirði nærri 17 milljarða króna, í kosningasjóð í september sem er nýtt met. Gamla metið var sett í ágúst þegar framboðið aflaði 66 milljóna dala.
Þetta fé gerir Obama kleift að auglýsa gríðarlega á lokaspretti kosningabaráttunnar en kosningarnar fara fram 4. nóvember.
Obama ákvað að þiggja ekki opinber framlög vegna kosningabaráttunnar og því er ekkert hámark á því hvað hann getur safnað í kosningasjóði sína. John McCain, frambjóðandi repúblikana, þiggur hins vegar opinber framlög og er hámark á kosningasjóð hans því 84 milljónir dala í september og október.
Í tilkynningu frá framboði Obama kemur fram að 632 þúsund nýir skráðir stuðningsaðilar hafi bæst við og þeir séu nú 3,1 milljón talsins. Meðalframlag stuðningsmanna hafi verið 100 dalir í september, jafnvirði um 11 þúsunda króna.
Alls hefur framboð Obama aflað 605 milljóna dala í sjóði sína. Er kosningabarátta frambjóðandans orðin sú dýrasta í sögunni.