Síðasta atlaga McCains

John McCain er hann kom til Íslands ásamt Hillary Clinton …
John McCain er hann kom til Íslands ásamt Hillary Clinton fyrir nokkrum árum. Þorkell Þorkelsson

Það er á brattann að sækja fyrir John McCain, forsetaframbjóðanda repúblikana í kosningunum, sem haldnar verða í Bandaríkjunum 4. nóvember. En hann er þekktur fyrir að gefast ekki upp. Í fyrrasumar var búið að afskrifa hann, en honum tókst samt að tryggja sér tilnefningu flokks síns. Nú leggur hann í sína síðustu atlögu.

Barak Obama, frambjóðandi demókrata, hefur haft minnst sjö prósentustiga forskot á McCain í tvær vikur. The New York Times segir Obama nú þegar kominn með nógu marga kjörmenn til að ná kjöri. Hann þarf 270 kjörmenn. Samkvæmt greiningu blaðsins er hann kominn með 277 kjörmenn og McCain 185. Blaðið kemst að þessu með því að telja saman þau ríki þar sem frambjóðendurnir eru annars vegar með trausta forustu eða kjósendur hallast að þeim. Í Nevada, Colorado, Ohio, Norður-Karolínu og Flórída er of mjótt á munum til að hægt sé að spá.

En það er hægt að vinna upp forskot. Það sýndi Ronald Reagan þegar hann sigraði Jimmy Carter 1980. Tíu dögum fyrir kosningarnar hafði Carter átta prósentustiga forskot.

„Ef McCain sigrar mun hann hafa sett á svið stórkostlegasta og ólíklegasta pólitíska viðsnúning frá 1948 þegar Harry Truman sigraði,“ skrifaði Karl Rove, fyrrverandi stjórnmálaráðunautur George W. Bush forseta, á fimmtudag.

Það er því engin furða að Obama skuli hvetja stuðningsmenn sína til að líta ekki svo á að úrslitin séu ráðin. „Þeim ykkar sem eru í sigurvímu eða sjálfsörugg eða halda að þetta sé klárt nefni ég tvö orð: New Hampshire,“ sagði Obama á fjáröflunarfundi í New York og vísaði til þess þegar hann tapaði þar fyrir Hillary Clinton fyrir níu mánuðum og við tók kosningaslagurinn endalausi.

Í slagtogi við hryðjuverkamenn

Ætli McCain sér hins vegar að vinna upp forskot Obamas þarf hann að endurskoða málflutning sinn. Úr herbúðum hans hafa verið gerðar árásir á Obama. Í kappræðunum á miðvikudagskvöld dró McCain fram kynni Obamas af Bill Ayers, sem á sínum tíma var dæmdur fyrir hryðjuverk, en er nú háskólaprófessor.

Obama svaraði þessu með því að segja að hann hefði vissulega kynni af Ayers í gegnum nefndarsetu, en hann hefði verið átta ára þegar Ayers framdi ódæðisverk sín. Síðan mætti bæta því við að snerist málið um það hverja hann umgengist væru efnahagsráðgjafar sínir Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Warren Buffett, sem hafði rækilega varað við fasteignabólunni í Bandaríkjunum og undimálslánunum.

Sarah Palin, varaforsetaefni McCains, hefur verið sérstaklega iðin við að mjólka hryðjuverkavinkilinn. Yfirlýsingar hennar um að Obama sé í slagtogi við hryðjuverkamenn („pallin' with terrorists“) hafa vakið geðshræringu meðal stuðningsmanna repúblikana og þess eru dæmi að hrópað hafi verið „drepið hann“ á kosningafundum.

McCain hefur nokkrum sinnum séð sig knúinn til að koma Obama til varnar og segja að hann sé „heiðvirður fjölskyldumaður“ sem hann eigi aðeins í pólitískri baráttu við. Fyrir slíkar varnir hefur McCain uppskorið baul hjá stuðningsmönnum sínum.

Ærleg viðbrögð McCains á kosningafundum bera því ef til vill vitni að innst inni eru árásirnar á Obama honum þvert um geð. Hann virðist hins vegar ekki ætla að láta deigan síga þótt sýnt sé að þessar aðferðir falli kjósendum ekki í geð. Þær eiga sinn þátt í því að kosningabarátta McCains virðist vera að fuðra upp, en fjármálakreppan er þó helsti skaðvaldurinn. Hvorugur þeirra nýtur reyndar mikils trausts kjósenda þegar kemur að því að leysa efnahagsvandann. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert