Eric Schmidt, framkvæmdastjóri Google, hyggst lýsa yfir stuðningi við Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, í vikunni og þá hyggst hann jafnframt aðstoða Obama á lokasprettinum, en kosið verður 4. nóvember nk. Frá þessu greinir bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal í dag.
„Ég er að gera þetta sjálfur,“ sagði Schmidt í viðtali við blaðið og bætti því við að Google sé hlutlaust hvað varðar sjálfar forsetakosningarnar, og það sé því ekki að lýsa yfir stuðningi við Obama.
Wall Street Journal segir að Schmidt hyggist taka höndum með yfirmönnum annarra tæknifyrirtækja og lýsa sameiginlega yfir stuðningi við Obama. Þá segist hann ætla vera viðstaddur viðburð með Obama sem fer fram í Flórída á morgun.
Ekki kemur fram hverjir hinir framkvæmdastjórarnir eru sem hyggjast einnig lýsa yfir stuðningi við Obama.