Vísbendingar eru um að kreppan á Vesturlöndum sé að teygja arma sína til Asíu. Má m.a. ráða það af minnkandi þjóðarframleiðslu í Kína á fyrstu níu mánuðum ársins. Þjóðarframleiðsla á því tímabili var 9,9% meiri en á sama tímabili á síðasta ári en það ár var aukningin frá fyrra ári 12,2%. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Það er ekki að sjá nein batamerki á hagkerfinu,” segir Li Xiaochao, talsmaður kínversku hagstofunnar. Það hefur dregið mjög úr aukningu þjóðarframleiðslu.” Þjóðarframleiðsla í Kína hefur ekki aukist jafn lítið á milli tímabila frá árinu 2003 er SARS faraldurinn kom upp í Kína.
Xiaochao segir að fyrst og fremst megi rekja þetta til samdráttar í útflutningi en jarðskjálftarinir í Sichuan héraði í maí og erfiður vetur hafi einnig dregið úr þjóðarframleiðslu.
Í síðustu viku var The Smart Union Group (Holdings) Ltd. Verksmiðjunni í Dongguan í suðurhluta Kína lokað en þar unnu 7.000 manns við framleiðslu leikfanga fyrir Mattel, Hasbro og fleiri bandarísk fyrirtæki.
Hagvöxtur í Kína þykir enn innan eðlilegra marka en samdráttur þar er þó talinn líklegur til að auka enn á afleiðingar kreppunnar í Evrópu.
„Það var alltaf von til þess að Kína myndi draga vagninn fyrir Bandaríkin en ef það hægir á öllu í Kína þá getur það gert slíkar vonir að engu,” segir Nicole Sze, sérfræðingur hjá Bank Julius Baer & Co í Singapore.