Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) spáir því að fjármálakreppan í heiminum muni leiða til þess að 20 milljónir starfa muni hverfa af sjónarsviðinu fyrir lok næsta árs.
Stofnunin segir að störf í byggingariðnaði, sölu fasteigna og bifreiða og störf í fjármálaþjónustu muni einna helst verða fyrir barðinu á þeim breytingum sem hafa orðið vegna kreppunnar. ILO byggir þetta að hluta á spám Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi horfur hagkerfa heimsins.
Juan Somavia, framkvæmdastjóri ILO, segir mikilvægt að fólk gleymi ekki mannlega þættinum þegar talað sé um fjármálakreppuna. Hvað komi fyrir fólkið, og hvað komi fyrir störfin og fyrirtækin.
Somavia segir að ILO vilji stýra viðræðum um hvernig leysa megi kreppuna og fjölga störfum, auk þess sem ræða eigi um önnur skref til að stuðla að „raunverulega hagkerfinu“, eins og hann orðar það.
„Það væri sorglegt ef svara á undirmálsneyð með undirmálsstefnum,“ sagði hann, og vísaði til undirmálslánanna svokölluðu sem eiga stóran þátt í því að fjármálastofnanir víða um heim hafi riðað til falls.
Alþjóðavinnumálastofnunin hefur enn ekki skoðað hvar í heiminum störfum muni fækka. Somavia segir hins vegar að því sé spáð að um 210 milljónir manna muni verða án atvinnu síðla á næsta ári, samanborið við 190 milljónir á síðasta ári. Þetta yrði þá í fyrsta sinn sem yfir 200 milljónir yrðu án atvinnu í heiminum.