Fjölmiðlafár í Bretlandi út af snekkjudvöl stjórnmálamanna

Peter Mandelson viðskiptaráðherra
Peter Mandelson viðskiptaráðherra Reuters

Leiðtog­ar breska Íhalds­flokks­ins hafa með nokkuð óvænt­um hætti dreg­ist inn í póli­tískt moldviðri heima fyr­ir vegna dval­ar Mandel­sons lá­v­arðar og ný­skipaðs viðskiptaráðherra Breta um borð í snekkju rík­asta ólíg­ark­ans í Rússlandi, Oleg Der­ipaska.

Vin­ur Mandel­sons hef­ur upp­lýst að Georg Os­borne, sem fer með fjár­mál í skuggaráðuneyti Íhalds­flokks­ins, og Andrew Feldm­an, helsti fjár­öfl­un­ar­forkólf­ur Dav­id Ca­meron, leiðtoga íhalds­manna, hafi báðir verið um borð í snekkju Der­ipaska, K drottn­ingu, í sum­ar sem leið.

Sam­kvæmt frétt­um í The Times var á þess­um fundi til umræðu hugs­an­legt 50 þúsund punda fram­lag frá Der­ipaska í kosn­inga­sjóð Íhalds­flokks­ins. Upp­lýs­ing­arn­ar koma fram í bréfi til blaðsins frá sam­eig­in­leg­um kunn­ingja Os­borne og Mandel­sons, Nathaniel Rothschild. Rothschild held­ur því fram að um borð í snekkj­unni sem lá þá bund­in við fest­ar á eyj­unni Korfu, hafi Feldm­an stungið því að ólíg­ark­an­um að hann veitti pen­ing­un­um í gegn­um eitt af fyr­ir­tækj­um sín­um sem skráð eru í Bretlandi.

Óheim­ilt er í Bretlandi að taka við fram­lög­um af þessu tagi frá er­lend­um aðilum sem og að nota bresk fyr­ir­tæki til að breiða yfir hvaðan fram­lög­in koma. Tals­menn Íhalds­flokks­ins hafa harðlega neitað því að nokkuð slíkt hafi verið á ferðinni og lagt áherslu á að ekki hafi verið tekið við nein­um fram­lög­um frá Der­ipaska, þó að viður­kennt sé að þeir Os­borne og Feldm­an hafi gert stutt­an stans um borð í snekkj­unni.

Mandel­son hef­ur sömu­leiðis for­dæmt að vera hans um borð í snekkj­unni skuli gerð tor­tryggi­leg því að hann hafi verið þar og notið gest­risni Der­ipaska meðan hann var enn yf­ir­maður viðskipta­mála hjá fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins. 

Varla get­ur verið til­vilj­un að þetta mál sé vakið upp ein­mitt núna í þann mund sem Mandel­son á að koma fyr­ir þing­nefnd breska þings­ins  og sitja fyr­ir svör­um eft­ir óvænta end­ur­komu í bresk stjórn­mál sem viðskiptaráðherra. Né held­ur að leiðtog­ar íhalds­manna skuli drag­ast inn í moldviðrið.

Málið allt þykir bera með sér fingra­för spuna­meist­ara úr báðum fylk­ing­um en þeir eru óvíða fyr­ir­ferðarmeiri en í besk­um stjórn­mál­um.

George Osborne.
Geor­ge Os­borne.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert