Fjörutíu Svíar handteknir fyrir lyfjasölu

mbl.is/Árni Torfason

Lögregla í Svíþjóð tilkynnti í dag, að 40 manns hefðu verið handteknir í tengslum við rannsókn á sölu á steralyfjum og öðrum lyfjum gegnum netið. Málið komst upp þegar 51 árs gamall karlmaður var handtekinn í bænum Gävle en hann er sagður vera höfuðpaur hringsins. 

Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að lögreglan í Gävle hafi í samvinnu við ríkislögregluna og 10 önnur lögreglulið, handtekið tugi manna, sem tóku þátt í að selja lyfin á netinu.

Mikið magn af steralyfjum, sprautum og tölvum fannst á heimili mannsins. Þeir sem tóku þátt í lyfjahringnum eiga yfir höfði sér fangelsisvist eða sektir.

Flest steralyfin sem fundust voru framleidd í Kína og á Indlandi. Íþróttamenn hafa orðið uppvísir að því að  nota slík lyf til að byggja upp líkamann og bæta árangur sinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert