Fundnir sekir um hryðjuverkastarfsemi í Danmörku

Dómstóll í Danmörku hefur fundið tvo 22 ára gamla karlmenn  seka um að undirbúa hryðjuverkaárásir. Mennirnir voru handteknir í íbúð við Glasvej í norðvesturhluta Kaupmannahafnar í september á síðasta ári eftir að þeir gerðu tilraunir með sprengiefni.

Mennirnir tveir heita Hammad Khuershid, danskur ríkisborgari af pakistönskum uppruna, og Abdoulghani Tokhi, sem er Afgani. Sprengiefnið sem þeir gerðu tilraunir með var af sömu tegund og það sem notað var í hryðjuverkaárásum í Lundúnum árið 2005. Mennirnir sögðust hafa ætlað að búa til flugelda.

Rétturinn taldi sannað, að Khuershid hefði verið í þjálfunarbúðum hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda á landamærasvæði Afganistans og Pakistans. Þar hefði hann fengið þjálfun í vopnaburði og lært að búa til sprengjur.

Ekki er ljóst hvert skotmark mannanna tveggja átti að vera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert