Talið er að fossarnir fjórir, sem Ólafur Elíasson, listamaður, lét setja upp í Austurá í New York, hafi skilað borginni um 69 milljóna dala tekjum, jafnvirði 7,9 milljarða króna, og um 1,4 milljónir manna hafi gert sér ferð til að skoða þá.
Michael Bloomberg, borgarstjóri, segir að tekjurnar hafi verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir en áætlanir gerðu ráð fyrir 55 milljóna dala tekjum. Fossarnir birtust 26. júní og féllu í ána til 13. október.
Um er að ræða stærsta listaverk, sem borgin hefur sett upp frá árinu 2005 þegar verkið Hliðin, eftir Christo var sýnt í Miðgarði.