Aukin jarðvarmanotkun í Bandaríkjunum

Jarðhiti er mikil náttúruauðlind eins og Íslendingar þekkja þjóða best
Jarðhiti er mikil náttúruauðlind eins og Íslendingar þekkja þjóða best mbl.is/ÞÖK

Innanríkisráðuneyti Bandaríkjaþings áætlar að nýta 190 milljón ekrur, 76 milljón hektara, af landi í ríkiseigu í tólf fylkjum undir þróun háhitaverkefna. Afraksturinn gæti séð um 5 milljón bandarískum heimilum fyrir rafmagni.

Dirk Kempthorne, innanríkisráðherra, sagði í dag að um 270 byggðakjarnar gætu haft beinan hagnað af rafmagnsframleiðslu á jarðhitasvæðum. „Jarðhiti er endurnýtanleg auðlind sem framleiðir rafmagn með lágmarks kolefnalosun og dregur úr þörfinni fyrir hefðbundnar orkulindir,“ sagði Kempthorne þegar hann kynnti áætlunina.

Áætlunin tekur bæði til skóglendis og gresja, en þjóðgarðar eins og Yellowstone, þar sem er frægt háhitasvæði og hverir, standa þó utan áætlunarinnar. Lokahönd verður lögð á áætlunina innan tveggja mánaða og verða svæðin þá leigð til verktaka en ágóðanum deilt milli ríkisstjórnar, fylkjastjórnar og bæjarstjórna viðkomandi svæða.

Áætlunin miðar fyrst og fremst að því að framleiða rafmagn fyrir heimili þótt möguleikinn á upphitun húsa með hitaveitu sé einnig til umræðu. Miðað er við að rafmagnsframleiðsla verði komin vel af stað árið 2015.

Mesta raforkuframleiðsla heims með notkun jarðgufustöðva er í Bandaríkjunum annars vegar og á Filippseyjum hinsvegar. Með nýju áætluninni mun framleiðslan aukast verulega í Bandaríkjunum, eða um allt að 5.540 megawött.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert