Mark Fitzgerald, aðmíráll í sérstakri herdeild innan NATO sem ætlað er að berjast gegn sjóræningjum, segir að mjög erfitt geti reynst að stemma stigu við sjóránum úti fyrir Sómalíu. Þá segir hann enn vera rætt um það innan NATO hvaða reglurnar skuli gilda í hernaði gegn sjóræningjum. Þetta kemur fram á fréttaveg BBC.
„Sá tími sem líður á milli þess sem sjóræningi kemur upp um sig og þar til hann er kominn um borð í skip er svo stuttur,” segir Fitzgerald en herdeild undir stjórn hans er væntanleg á hafsvæðið úti fyrir Sómalíu innan skamms.
Um 20.000 skip fara um hafsvæðið árlega og segir Fitzerald þá miklu umferð flækja mjög eftirlit á svæðinu. „Það er mjög takmarkað frá hernaðarlegu sjónarhorni, hvað við getum gert,” segir hann. „Hvernig getum við sannað að einhver sé sjóræningi áður en hann ræðast á skip?”
Sjö orrustuskip eru í herdeild NATO en bandarísk herskip eru þegar á svæðinu. Þá hafa yfirvöld á Indlandi og í Evrópu lýst sig reiðubúin til að taka þátt í aðgerðum til að koma í veg fyrir sjórán á svæðinu.
Herdeild NATO er fyrst og fremst ætlað að vernda skip Sameinuðu þjóðanna sem flytja neyðargögn til Sómalíu en þrjár milljónir manna, nær helmingur allra Sómala, lifir á matvælaaðstoð stofnunarinnar.