Þjáningar Þjóðverja rifjaðar upp

Kvikmyndin „Eine Frau in Berlin” (Kona í Berlín) hefur vakið upp umræður um tímabil í sögu Þýskalands sem lítið hefur verið rætt um til þessa. Í myndinni er fjallað um tímabilið strax að loknu síðari heimsstyrjöldinni og þá sérstaklega þær þjáningar sem þýskar konur liðu á þeim tíma. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Myndin, sem frumsýnd er í þessari viku, er byggð á dagbókum Mörtu Hiller, sem var ung stúlka í Berlín er Rauði herinn náði borginni á sitt vald árið 1945. Er þar m.a. greint frá nauðgunum sovéskra hermanna sem eltu þýskar stúlkur ófeimnir um götur borgarinnar.

Lítið hefur verið fjallað um efnið opinberlega í Þýskalandi til þessa en myndin hefur nú vakið umræður um þá tilhneigingu Þjóðverja að grafa og gleyma þjáningum sínum frá þessu tímabili.

„Þýsku hermennirnir, sem komu heim eftir stríðið, vildu ekki horfast í augu við þær þjáningar sem konur þeirra, dætur og mæður höfðu gengið í gegn um. Það varð því til einhvers konar tvöfaldur feluleikur. Karlarnir leyndu konurnar upplifunum sínum frá vígstöðvunum og konurnar leyndu karlana upplifunum sínum,” segir aðalleikkona myndarinnar Nina Hoss í viðtali við breska blaðið The Times.

Þá segir hún að í Austur-þýskalandi hafi umræða um framkomu sovésku hermannanna verið þögguð niður þar sem þar hafi verið litið á Sovétmenn sem vini og samherja. Í Vestur-Þýskalandi hafi verið farið með slík mál sem smánarleg fjölskylduleyndarmál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert