Fréttastofa Sky sjónvarpsstöðvarinnar segist hafa traustar heimildir fyrir því að börn séu nú farin að láta lífið vegna vannæringar í Simbabve. Þá er staðhæft í frétt Sky að Robert Mugabe, forseti landsins, beiti öryggissveitum sínum til að koma í veg fyrir að fréttir af ástandinu breiðist út.
Fram kemur í sjónvarpsfrétt stöðvarinnar, sem tekin var var með falinni myndavél, að á einu sjúkrahúsi í héraðinu Manicaland í austurhluta landsins liggi fimmtán börn illa haldin af vannæringu. Getur eitt þeirra, fjögurra ára stúlka, ekki staðið í fæturna af máttleysi.
Staðhæft er að sjúkrahúsið sé eitt af mörgum þar sem fórnarlömb matvælaskortsins í landinu séu falin fyrir umheiminum. Er starfsfólk þar sagt lifa við ógnanir öryggissveitanna og hótanir um handtökur greini það frá ástandinu.
Einnig er staðhæft að fjöldi fólks láti börn sín deyja heima fremur en að leita til yfirvalda þar sem það geri sér grein fyrir því að enga raunverulega hjálp sé að fá. „Börnin deyja hljóðlega í þorpunum,” segir breski barnalæknirinn Geoff Foster, sem starfar í Simbabve.Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna hafa 3,9 milljónir manna þörf fyrir matvælaaðstoð til að komast af í Simbabve og gera áætlanir ráð fyrir því að fjöldi þeirra hækki í 5,1 milljón á næsta ári.
Atvinnuleysi er mikið í landinu auk þess sem verðbólga er nú 231 milljón %. Jafnvel fólk í vinnu hefur því ekki efni á að brauðfæða sína nánustu