Boðuð hafa verið mótmæli í London á mánudaginn kemur, vilja íbúar í Haringey í Norður London fá svör við spurningum um áhrif íslenska bankahrunsins á fjárhag og þjónustu í bæjarfélaginu.
Bæjarstjórn Haringey í Norður London hefur tilkynnt að 37 milljón punda fjárfesting hennar í þremur íslenskum bönkum sitji þar föst eftir hrun íslensku bankanna og nú vilja þrýstihópar og verkalýðsfélög fá rannsókn á því hvaða áhrif þetta muni hafa á störf fólks og þjónustu bæjarfélagsins.
„Það getur ekki verið að staðhæfingar bæjarstjórnarinnar þess efnis að þó þetta fé glatist komi það ekki til með að hafa áhrif. Voru 37 milljón pund í smámynt sem þeir koma ekki til með að sakna hringlandi í kistu bæjarfélagsins?," sagði Keith Flett formaður TUC verkalýðsfélagsins á vefsíðu Haringey Independent í dag.