Baráttan neikvæð og ódrengileg

AP

Barack Obama, frambjóðandi demókrata í bandarísku forsetakosningunum gagnrýndi mótherja sinn, John McCain, forsetaefni repúblikana, harkalega í dag fyrir neikvæða og á köflum ódrengilega baráttu. Þrátt fyrir að kannanir bendi til að Obama hafi umtalsvert forskot á McCain hvetur McCain stuðningsmenn sína til að örvænta ekki.

Obama sagði í ræðu sem hann flutti í Nevada í dag að viðurstyggileg símtöl starfsmanna McCains, villandi póstsendingar og sjónvarpsauglýsingar og óvarlegar og á stundum hneykslanlegar fullyrðingar keppinautarins, hindruðu nauðsynlegar breytingar.

Obama sagði neikvæða kosningabaráttu það allra sísta sem bandaríska þjóðin þyrfti á að halda nú. „Þjóðin vill ekki baráttu þar sem frambjóðendur stinga augun hver úr öðrum heldur vill fólk heyra hvernig við hyggjumst glíma við vandamálin sem blasa við almenningi í þessu landi,“ sagði Obama.

John McCain hitti kjósendur í New Mexico í dag. Í ræðu sinni réðst hann harkalega á skattahugmyndir Obama. „Hann vill endurdreifa auðnum. Það mun koma harðast niður á millistéttinni,“ sagði McCain. Sjálfur segist hann leggja fyrirtækjum lið svo þau geti vaxið enn frekar og þannig skapað fleiri Bandaríkjamönnum störf.

Obama hefur 13 prósentustiga forskot á McCain, samkvæmt skoðanakönnun Newsweek. Könnunin bendir til að Obama hafi fylgi 53% kjósenda en McCain 40% fylgi. Gallup kannanir benda til þess að forskot Obama sé jafnvel enn meira. Fréttastofa NBC telur að Obama sé með nægan meirihluta til að vinna kosningarnar.

John McCain hvatti stuðningsmenn sína til að örvænta ekki þó kannanir gæfu til kynna að á brattann væri að sækja. „Berjist, Bandaríkin eru þess virði. Við munum sigra,“ sagði McCain.

Bæði Obama og McCain hafa verið á kosningaferðalagi í Vesturríkjum Bandaríkjanna síðustu daga en talið er að kjósendur þar geti ráðið úrslitum í komandi forsetakosningum sem fram fara 4. nóvember nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert