Mohammad Ali Khatibi, olíumálaráðherra Írans, segir ekki útilokað að draga þurfi enn frekar úr olíuframleiðslu OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja. Olíumálaráðherrar OPEC ákváðu í síðustu viku að draga úr framleiðslunni um 1,5 milljónir tunna á dag vegna gífurlegs verðfalls.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur haldið áfram að lækka þrátt fyrir ákvörðun OPEC á dögunum. Fatið af hráolíu er komið niður fyrir 65 Bandaríkjadali en Íranir telja sig þurfa að fá að minnsta kosti 90 Bandaríkjadali fyrir fatið.
Fulltrúar aðildarríkja OPEC áforma að þinga í Alsír í desember en hugsanlegt er að fundinum verði flýtt vegna verðþróunarinnar.