Sarah Palin kastar fínu fötunum

John McCain og Sarah Pali á fundi í Cincinnati í …
John McCain og Sarah Pali á fundi í Cincinnati í Ohio í síðustu viku. Reuters

Sarah Palin, varaforsetaefni bandaríska Repúblikanaflokksins, sagðist í dag ætla að sniðganga dýr föt, sem flokkurinn keypti handa henni eftir að hún samþykkti að verða í framboði með John McCain, forsetaefni flokksins. Þess í stað ætlar hún að klæðast fötum, sem hún hefur keypt í Alaska.  

Palin lagði áherslu á það, þegar hún ávarpaði kosningafund í Tampa á Flórída í dag, að hún væri í sínum eigin jakka og benti á föt sín. Sagðist hún ekki framar ætla að klæðast fötum, sem hún ætti ekki.  

„Ég á ekki þau föt, frekar en ljósabúnaðinn og sviðsmyndina og annað sem alríkisnefnd Repúblikanaflokksins keypti," sagði Palin. „Ég mun ekki taka þau með mér. Ég er aftur farin að nota mín eigin föt sem ég keypti í uppáhalds póstversluninni minni í Anchorage," sagði hún.

Palin sagðist í fyrstu hafa ætla að leiða umræðuna um fötin dýru hjá sér  en ákveðið síðan að taka á málinu.

Fréttavefurinn  Politico sagði frá því í síðustu viku, að Repúblikanaflokkurinn hefði keypt föt fyrir um 150 þúsund dali, jafnvirði 17 milljóna króna, í tískuverslunum á borð við Neiman Marcus og Saks Fifth Avenue. Fötin, auk hárgreiðslu og förðunar, voru skráð sem útgjöld vegna kosningabaráttu. 

Framboð McCain sagði síðar, að fötin yrðu gefin til góðgerðasamtaka eftir forsetakosningarnar 4. nóvember.

Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir Palin, sem hefur lýst sér sem íshokkí-mömmu og elgveiðimanni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert