Helsta dagblað Alaska, sem er heimaríki Söruh Palin ríkisstjóra, hefur lýst yfir stuðningi við Barack Obama, forsetaefni demókrata, fyrir komandi forsetakosningar.
Dagblaðið Anchorage Daily News, sem hefur mjög mikla dreifingu í Alaska, segir að það sé of áhættusamt að Palin skuli vera einu skrefi frá því að verða forseti.
Í leiðara blaðsins í dag kemur fram að það að hún skuli hafa verið útnefnd hafi vakið hrifningu íbúa ríkisins. Það megi hins vegar ekki hafa áhrif á dómgreind fólks.
Athyglin skuli beinast að John McCain, en blaðið segir að valið á honum hafi ekki verið rétt.