Grýta höfuðstöðvar SÞ í Kongó

AP

Þúsundir mótmælenda réðust í morgun að höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í austurhluta Lýðveldisins Kongó og grýttu þær. Fólkið vildi mótmæla því að 17 þúsund manna friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna hefði ekki tekist að koma á stöðugleika í landinu og vernda óbreytta borgara gegn árásum uppreisnarmanna.

Stjórnarherinn hefur undanfarna tvo mánuði, barist við uppreisnarmenn sem eru hliðhollir hershöfðingjanum Laurent Nkunda. Ástandið í austurhluta landsins er mjög alvarlegt. Um 200 þúsund manns hafa misst heimili sín, margir þjáist af vannæringu og sumir eru að látast af völdum hungurs.

Reiðin kraumar í fólki og upp úr sauð í morgun. Fólkið kastaði grjóti og öðru lauslegu inn fyrir girðinguna sem umlymkur höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í höfuðborginni Goma. Ekki hafa borist fregnir af manntjóni en gluggar brotnuðu og bílar skemmdust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert