Starfsmönnum Reuters í New York brá í brún þegar þegar í ljós kom að dularfullt bréf með dufti hafði borist fréttastofunni í pósti. Starfsmönnunum var í framhaldinu var gert að yfirgefa skrifstofurnar á meðan málið var rannsakað.
Lögreglan var kölluð á staðinn eftir að einn ritstjóra fréttastofunnar hafði opnað bréfið og séð duftið. Lögreglan bað starfsmennina, sem eru um 140 talsins, um að yfirgefa skrifstofurnar sem eru á 19. hæð háhýsis á Manhattan.
Bréfið var einangrað sem og ritstjórinn á meðan málið var rannsakað, en skrifstofunni var lokað í fjóra tíma. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að efnið var ekki hættulegt.
Þrátt fyrir að hafa þurft að yfirgefa skrifstofurnar gerðu fréttamennirnir ráðstafanir þannig að þeir gætu haldið áfram að skrifa fréttir á öðrum skrifstofum.
Skrifstofur fréttastofunnar í New York, sem eru við Times Square, eru höfuðstöðvar Thomson Reuters, sem er móðurfélag fyrirtækisins. Fréttastofan er sú næst stærsta á eftir London.