Átök í Kaupmannahöfn

Á síðasta ári voru um 60 handteknir eftir að til …
Á síðasta ári voru um 60 handteknir eftir að til uppþota kom í Kristjaníu í kjölfar þess að Vindlakassinn, þekkt hús í fríríkinu, var jafnað við jörðu. Myndin er frá því í fyrra. Reuters

Átök hafa brotist út milli mótmælenda og lögreglu við fríríkið Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Mótmælendur hafa kastað grjóti og eldsprengjum í lögregluna, sem hefur svarað með því að skjóta táragasi.

Mótmælendurnir hafa kveikt elda og lokað götum í Kristjánshöfn Fjölmennt lögreglulið er mætt á svæðið. Þá hefur slökkviliðið verið kallað á staðinn til þess að slökkva eldana.

Að sögn lögreglu hafa a.m.k. þrír verið handtekir fyrir óspektir.

Mótmæli hófust fyrr í dag, en þau hafa nú farið úr böndunum. Verið var að mótmæla því þegar lögreglan fór inn á svæðið í morgun til að láta rífa ólöglegt húsnæði. 

Lögreglan er sögð hafa áhyggjur af ástandinu, einkum þó vegna elda sem loga víða í bílum, öskutunnum, stillönskum og bekkjum.

Jyllands-Posten hefur eftir Flemming Steen Munch, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, að óeirðaseggirnir séu stjórnlausir og íbúum og gömlu húsunum í Kristjánshöfn stafi hætta af þeim.  

Á níunda tímanum lét lögregla til skarar skríða gegn fólki á Prinsessugötu og hrakti það inn í Kristjaníu. Er lögreglan nú að hreinsa til og slökkva elda. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert