Staðhæft er á pakistönsku sjónvarpsstöðinni Geo-TV að Osama bin Laden, æðsti leiðtogi hryðjuverkasamtakamma Al-Qaeda, hyggist gefa út bók um Al Qaeda samtökin og hugmyndafræði þeirra. Bin Laden er efstur á alþjóðlegum listum yfir eftirsótta glæpamenn en hann er m.a. talinn hafa staðið á bak við hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum árið 2001. Þetta kemur fram á fréttavef Aftenposten.
Er bókin sögð eiga að fjalla um uppbyggingu al Qaeda, árásirnar í Bandaríkjunum og hugmyndafræðina að baki aðgerðum bin Ladens. Þá er sagt að til standi að bin Laden fái ungar rithöfund í lið með sér við ritun bókarinnar og að hún verði skrifuð á arabísku en síðan þýdd yfir á ensku.
Efasemdir hafa ítrekað verið settar fram um það á undanförnum árum að bin Laden sé enn á lífi en þó hafa einstaka hljóðupptökur með meintri rödd hans verið birtar opinberlega.