Palin veldur spennu í búðum McCain

Sarah Palin þykir hafa sýnt stjörnustæla að undanförnu
Sarah Palin þykir hafa sýnt stjörnustæla að undanförnu

Vaxandi óánægja er nú sögð meðal þeirra sem stjórnað hafa kosningabaráttu John McCain, forsetaefnis bandarískra repúblíkana, með framgöngu varaforsetaefnis hans Söruh Palin. Þykir Palin hafa farið í auknu mæli eigin leiðir upp á síðkastið og er hún jafnvel sökuð um að hugsa meira um eigin ímynd en sameiginlegt framboð sitt og McCain. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Það mun hafa vakið reiði ráðgjafa framboðsins er Palin vakti máls á fatakaupum framboðsins fyrir sig á kosningafundi á Flórída á laugardag en þeir munu hafa ráðlagt henni að tjá sig ekki frekar um málið. Sagði Palin umræðu um málið fáránlegar og að fötin sem hún væri í væru ekki sín eign fremur en ljósabúnaðurinn í salnum eða annað það sem flokkurinn hefði keypt vegna framboðsins og að hún ætlaði ekki að taka neitt af þessu með sér heim.

Samstarfsmenn Palin staðfesta að ákveðin spenna sé komin upp á milli hennar og skipuleggjenda flokksins en að hún hafi ekki átt um annað að velja en að fara eigin leiðir þar sem leiðir sem þær leiðir sem lagðar hafi verið fyrir hana hafi ekki samræmst sjálfsmynd hennar og það misræmi hafi leitt til þess að hún hafi komið illa út í fjölmiðlum.

Samstarfsmenn McCain segja hana hins vegar ekki hafa sýnt þann liðsanda sem til þurfi í slíkum átökum.„Hún er stjarna. Hún þiggur ekki ráðleggingar frá nokkrum manni,” segir einn af aðstoðarmönnum Mccain í viðtali við blaðamann CNN. „Það ríkir ekki traust á milli hennar og nokkurs okkar, nokkurs innan fjölskyldu hennar eða nokkurs annars.”

 Sami aðili segir einnig ljóst að Palin hugi nú meira að eigin ímynd og framtíð innan flokksins en framboði McCain. Þá staðhæfir hann jafnvel að hún ætli sér að verða næsti leiðtogi flokksins. „Munið að stjörnur treysta engum nema sjálfum sér þar sem þær líta á sig sem upphaf og endi allrar visku,” sagði hann.  

Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana.
Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert