Heldur hefur dregið saman með Johmn McCain, forsetaframbjóðanda bandarískra repúblíkana og Barack Obama, frambjóðanda demókrata, samkvæmt skoðanakönnunum. Obama hefur þó enn forskot er vika er til kosninganna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
John McCain og varaforsetaefni hans Sarah Palin, eru nú í Pennsylvaníu og staðhæfðu þau í gærkvöldi að þau myndu sigra í ríkinu þvert á skoðanakannanir.McCain og Palin komu fram saman á kosningafundi í bænum Hershey í gær í fyrsta skipti frá því sögur fóru að berast af deilum á milli stuðningsmanna þeirra innan framboðsins. Þau urðu hins vegar að aflýsa tveimur öðrum kosningafundum vegna veðurs. „Þegar tvær skyttur taka höndum saman eru þær ekki sammála um allt en það er alltaf mikið fjör,” sagði McCain.
Hann hélt frá Pennsylvaníu til Norður-Karólínu. Þar hafa repúblíkanar sigrað í forsetakosningum frá árinu 1976 en skoðanakannanir benda til þess að mjög mjótt sé nú á mununum á milli flokkanna í ríkinu. Barack Obama var einnig í Pennsylvaniu í gær en hélt þaðan til Virginiu þar sem repúblíkanar hafa sigrað í forsetakosningum frá árinu 1964. Skoðanakannanir benda einnig til þess að þar sé nú mjög mjótt á mununum.