Fjármagn einkennir lokasprettinn

John McCain.
John McCain. AP

Fréttaskýrendur í Bandaríkjunum segja það verða greinilegra með hverjum deginum sem líður hversu mikill munur sé á fjárhagslegu bolmagni forsetaframbjóðandanna John McCain og Barack Obama.

Samkvæmt könnun sem gerð var þann 22. október birtust 150% fleiri  auglýsingar frá framboði Obama en framboði McCain í sjónvarpi í Colorado, Flórída, Georgíu, Missouri, Ohio, Pennsylvaníu og Virginíu þann dag. Þetta kemur fram á vefnum politico.com. 

Kevin Connolly, fréttamaður BBC í Washington, segir að þau vandamál sem McCain standi nú frammi fyrir hafi sett mark sitt á alla kosningabaráttu hans en McCain er fyrsti forsetaframbjóðandi repúblíkana um árabil sem hefur minna fjármagn í kosningabaráttunni en mótframbjóðandi hans. 

Kosningasjóður Obama hefur m.a. keypt sjónvarpstíma á helstu sjónvarpsstöðum Bandaríkjanna til að sýna hálftíma þátt um stefnumál hans í kvöld. Í fréttatilkynningu framboðsins segir að í ljósi þess að einungis sé ein vika til þessara sögulegu kosninga og í ljósi þess að „McCain haldi áfram að ráðast á Obama í örvæntingu og reiði vilji framboðið tryggja að kjósendur viti hvað Barack Obama vilji í raun gera til að stuðla að grundvallarbreytingum.”

Nokkrir fréttaskýrendur hafa velt því fyrir sér hvort framboð hans sé hugsanlega að ganga of langt með þessu. Flestir telja þó ekki að svo sé. „Þetta er alveg eins og í fótbolta. Það er hægt að kvarta undan því að það lið sem hefur yfirhöndina haldi að áfram að sækja að óþörfu, en það breytir því ekki að það er liðið sem vinnur,” segir Alex Castellanos, einn af ráðgjöfum repúblíkana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert