Lokaspretturinn hafinn

Lokaspretturinn er hafinn í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningunum í Bandaríkjunum á þriðjudag. Frambjóðendurnir tveir leggja á síðustu dögunum áherslu á ríki, þar sem kannanir benda til að munurinn sé lítill. Barack Obama hefur talsvert forskot á John McCain samkvæmt flestum könnunum.

McCain var í dag á ferð um Ohio en Obama ætlar að halda fundi í Flórída, Virginíu og Missouri.

Könnun sem Zogby stofnunin gerði fyrir Reuters og C-SPAN og birt var í kvöld bendir til þess að Obama hafi 7 prósentna forskot á McCain á landsvísu. Obama hefur forskot í mörgum ríkjum þar sem George W. Bush fór með sigur af hólmi í síðustu kosningum og í öllum ríkjunum sem John Kerry sigraði í. 

Kosningastjórn McCain segist hins vegar telja að munurinn fari hraðminnkandi. McCain kom í dag fram á kosningafundi í Sandusky í Ohio með Joe Wurzelbacher, sem fengið hefur nafnið Jói pípari og varð óvænt áberandi í kosningabaráttu McCains fyrir hálfum mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert