Bush ósýnilegur í kosningaherferð McCains

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur haldið sig frá sviðsljósi fjölmiðlanna.
George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur haldið sig frá sviðsljósi fjölmiðlanna. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur verið því sem næst ósýnilegur í kosningaherferð John McCain, forsetaframbjóðanda repúblikanaflokksins. Frá því að forsetinn lýsti yfir stuðningi sínum við framboð McCains, þann 5. mars síðastliðinn, hafa þeir kumpánar einungis þrisvar sinnum komið opinberlega fram saman. Samanlagt hafa þeir atburðir einungis staðið í tólf mínútur.

Fréttaskýrendur vestra segja þetta í hrópandi ósamræmi við hinn mikla fjölda fjáröflunarsamkoma og funda sem Bush sótti fyrir þingkosningar 2002 og 2006. 

Fréttaveitan AP segir frá því að Bush muni verja helginni á hvíldarstað sínum, Camp David. Á sama tíma standa forsetaframbjóðendurnir í lokabaráttu um hylli kjósenda. Bush hefur ekki tilkynnt neina fundi á mánudag eða þriðjudag og búist er við því að hann fylgist með talningu atkvæða í faðmi fjölskyldunnar í Hvíta húsinu. Um leið mun hann fagna 62 ára afmæli eiginkonu sinnar, Lauru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert