Dönsku stjórnarandstöðunni er að vaxa fiskur um hrygg samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem TV2 birti í morgun. Samkvæmt henni fengju stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir meirihluta á danska þinginu ef kosið væri nú.
Samkvæmt könnuninni fengju Jafnaðarmannaflokkurinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, De Radikale Venstre og Einingarlistinn samtals 90 þingsæti ef kosið væri nú. Stjórnarflokkarnir Venstre, Hægriflokkurinn, Danski þjóðarflokkurinn og Frjálslynda bandalagið fá samtals 85 þingsæti.
„Þetta þýðir, að kjósendur eru orðnir þreyttir á ríkisstjórninni og sjá, að hún hefur ekki svör við þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir vegna fjármálakreppunnar," sagði Henrik Sass Larsen, formaður þingflokks Jafnaðarmannaflokksins, við TV2.