John McCain, forsetaefni repúblikana, á enn tölfræðilega möguleika á sigri á þriðjudag. Möguleikar hans eru þó mun munni en andstæðings hans, demókratans Barack Obama.
Hugur er í herbúðum McCains og ríkir einkum ánægja með hversu vel hafi gengið að hringja í líklega stuðningsmenn frambjóðandans. Fylgismenn Obama hafa hins vegar verið duglegir við kosningasmölun, ásamt því að hafa úr meira fé að spila í kosningasjóðum.
Stuðningsmenn McCains hafa ekki látið sitt eftir liggja og hafa þúsundir sjálfboðaliða streymt til Pennsylvaníu á undanförnum dögum, enda litið svo á að McCain verði að sigra í sambandsríkinu til að eygja möguleika.
Rökin eru þau að ríkið veitir 21 kjörmann og myndi sigur þar því vega upp á móti tapi McCains í ríkjum sem búist var við að myndu falla repúblikanamegin í haust. Obama hefur hins vegar sótt fram í „rauðu ríkjunum“ sem svo eru kölluð og þá átt við ríki á borð við Virginíu sem ættu að öllu jöfnu að vera örugg vígi repúblikana.
Yfir 20 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar greitt atkvæði í forsetakosningunum og er meirihlutinn talinn á bandi Obama.
Svo sigurvissir eru liðsmenn Obama að þeir eru þegar farnir að undirbúa hvernig stilla beri væntingum í hóf eftir að hann nær kjöri, að því er fram kemur á vef breska dagblaðsins The Times.