Barack Obama heldur enn öruggu forskoti á John McCain, samkvæmt skoðanakönnunum, sem birtar voru í gærkvöldi og morgun. Samkvæmt könnun Zogby stofnunarinnar fyrir Reuters og C-SPAN segjast 50% ætla að kjósa Obama en 44% McCain.
Zogby hefur gert daglegar kannanir síðustu vikurnar og niðurstaðan í morgun sýnir, að Obama hefur styrkt stöðu sína síðustu dagana. Er það m.a. rakið til hálftímalangrar sjónvarpsauglýsingar, sem sýnd var í síðustu viku.
McCain fylgdi í gærkvöldi í fótspor Söruh Palin, varaforsetaefnis síns og kom fram í skemmtiþættinum Saturday Night Live. Gamanleikkonan Tina Fey lék Palin að venju.
Framboð Obama skilaði í gær 265 framlagi, sem frænka Obama gaf í kosningasjóð hans. Fram kom um helgina, að frænkan, sem er hálfsystir föður Obama og er frá Kenýa, hefur dvalið ólöglega í Bandaríkjunum undanfarin fjögur ár. Frambjóðendur mega ekki taka við framlögum frá útlendingum. Obama sagðist ekki hafa vitað um þessar aðstæður frænku sinnar.