Sarah Palin fórnarlamb hrekkjalóma

Sarah Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblikana, gekk í gildru kanadískra hrekkjalóma í síðustu viku en hringt var í hana og sagt að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, væri á línunni. Palin átti langt samtal við „Sarkozy" sem reyndist vera kanadískur útvarpsmaður. Viðtalið verður leikið í útvarpsþættinum á morgun.

Í viðtalinu ræddu þau Palin og útvarpsmaðurinn Marc-Antoine Audette m.a. um stjórnmál, hættur sem fylgja dýraveiðum með Dick Cheney, varaforseta, og frönsku forsetafrúna. 

Þegar Audette spurði Palin hvort hún yrði ekki góður forseti svaraði hún: Kannski eftir átta ár. 

Tracey Schmitt, talsmaður Palin, staðfesti að símtalið hefði átt sér stað.  „Palin ríkisstjóra var hóflega skemmt þegar hún frétti að hún hefði gengið í raðir þeirra þjóðhöfðingja, þar á meðal Sarkozy forseta, og ýmissa skemmtikrafta, sem hafa orðið fórnarlamb þessara hrekkjalóma.  C'est la vie,"  sagði hún. 

Í viðtalinu gaf Audette ýmsar vísbendingar um að ekki væri allt sem sýndist. Hann sagði að Johnny Hallyday, sem er frægur franskur söngvari, væri sérlegur ráðgjafi sinn í málefnum Bandaríkjanna. Þá talaði hann um  Steph Carse sem forsætisráðherra Kanada. Carse er kunnur kanadískur söngvari en forsætisráðherrann er Stephen Harper.

Í samtalinu segir Audette m.a. við Palin að hann njóti þess að „drepa þessi dýr." „Við ættum að fara saman á veiðar," svarar hún. „Ég held að við myndum njóta þess á meðan við værum að störfum - slá tvær flugur í einu höggi."

Audette segir, að þau ættu ekki að bjóða Dick Cheney með, og vísar þar til þess að Cheney skaut óvart veiðifélaga sinn árið 2006.

„Ég verð varkár," svarar Palin.

Audette gerir síðan grín að ummælum Palin í sjónvarpsviðtali þegar hún sagðist hafa innsýn í utanríkismál vegna þess að hún sæi Rússland úr garðinum heima hjá sér í Alaska ef bjart væri í veðri.

„Þú veist að við eigum ýmislegt sameiginlegt en ég get séð Belgíu frá húsinu mínu," segir hrekkjalómurinn.

„Já sjáðu til, við erum skammt frá öðrum löndum, sem við þurfum að vinna með," svarar hún. 

Audette segir síðan við Palin, að Carla Bruni, eiginkona hans, sé svo „villt í rúminu" og að hún hafi samið lag fyrir Palin um Jóa pípara, sem nefnist De rouge a levre sur un cochon - en það þýðir varalitur á svíni. 

Audette segir einnig við Palin að hann sé afar hrifinn af „heimildarmyndinni" sem gerð hafi verið um hana og vísar til klámmyndar sem Larry Flynt, stofnandi tímaritsins Hustler, lét gera.

Palin svarar: „Ó, gott, þakka þér fyrir." 

Í lok samtalsins sagði Audette deili á sér og útvarpsstöðinni. „Nú, höfum við verið hrekkt," segir Palin og réttir aðstoðarmanni sínum símann.

Audette lýsti síðar yfir „iðran" vegna hrekksins. „Ég vona að við höfum ekki tryggt okkur miða aðra leiðina til Guantánamoflóa." 

Þeir   Audette og Sebastien Trudel  hafa með svipuðum hætti hrekkt Mick Jagger, Britney Spears, Bill Gates og  Jacques Chirac, fyrrum Frakklandsforseta, svo nokkur séu nefnd.

Sarah Palin.
Sarah Palin. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert