Íraki, sem tók þátt í að greftra lík Saddams Husseins, fyrrum forseta Íraks, eftir að hann var hengdur undir lok ársins 2006, segir að sex sár eftir hnífsstungur hafi verið á líkinu. Írösk stjórnvöld vísa þessu á bug.
Breska blaðið Sunday Times hefur eftir Talal Misrab, yfirmanni varðsveita við gröf Saddams í al-Awja, norður af Bagdad, að sex sár eftir hnífsstungur hafi verið á líkinu. Einnig hafi verið áverkar á andliti Saddams.
Misrab segir, að um 300 manns, sem viðstaddir voru útför Saddam, hafi séð áverkana á líkinu þegar það var grafið á gamlársdag 2006, daginn eftir að Saddam var tekinn af lífi fyrir glæpi gegn írösku þjóðinni.
Mowaffak al-Rubaie, öryggisráðgjafi Íraks, segist hins vegar hafa haft umsjón með útförinni og lík Saddams hafi ekki sætt illri meðferð og honum hafi ekki verið misþyrmt fyrir aftökuna.
Sheikh Hasan al-Neda, sem er nú leiðtogi ættbálks Saddams, fullyrðir einnig að ásakanarnir séu rangar.
Í myndbandi, sem sett var á netið og sýndi aftöku Saddams, sást þegar verðir hæddu forsetann fyrrverandi þegar snaran var sett um háls hans. Myndbandið vakti alþjóðlega hneykslan.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sagði við The Times í október, að hann harmaði hvernig staðið var að aftökunni og sagði að þeim sem hæddu Saddam hefði verið refsað.