Greiddu ekki lausnargjald

Andrea Kloiber og Wolfgang Ebner í forsetahöllinni í Malí, daginn …
Andrea Kloiber og Wolfgang Ebner í forsetahöllinni í Malí, daginn eftir að þeim var sleppt úr haldi al-kaída. AP

Austurrísk yfirvöld segjast ekki hafa greitt lausnargjald fyrir frelsun tveggja Austurríkismanna sem al-kaída sleppti úr haldi í síðustu viku. Fólkið hafði verið í haldi mannræningjanna í átta mánuði. Því var rænt í febrúar þegar það var á ferðalagi í Túnis en sleppt í Malí á fimmtudag.

Wolfgang Ebner, 51 árs og Andrea Kloiber, 43 ára voru á ferðalagi í Túnis 22. febrúar þegar þau voru tekin höndum af al-kaída.

Samtökin settu þau skilyrði að allir meðlimir samtaka þeirra sem eru í fangelsum í Túnis og Alsír, verði látnir lausir. Austurrísk yfirvöld hafa opinberlega sagt að þau semji ekki við hryðjuverkamenn og að lausn fanga í Túnis og Alsír sé fyrir utan þeirra umdæmi. Samningaviðræður fóru þó fram bakvið tjöldin en lausn fannst ekki fyrr en á fimmtudag. Þá hafði Amadou Toumani Toure, forseti Malí haft milligöngu um lausn gíslanna.

Fólkinu var sleppt síðdegis á fimmtudag í Malí og þaðan komust gíslarnir til Vínarborgar. Þau dvelja nú á hersjúkrahúsi í Vín. Hvorugt hefur komið opinberlega fram en þau eru að sögn við góða heilsu. 

Austurrísk yfirvöld þvertaka fyrir að gengið hafi verið að kröfuim al-kaída.

„Austurríki lætur ekki hryðjuverkamenn kúga sig og því verður aldrei gengið að kröfum þeirra," sagði Norbert Darabos varnarmálaráðherra Austurríkis.

Hann þakkaði sérstaklega Amadou Toumani Toure, forseta Malí fyrir hans þátt í lausn gíslanna.

„Það voru forsetinn og hans fólk sem stuðluðu að lausn deilunnar,“ sagði Ursula Palassnik, utanríkisráðherra Austurríkis. Hún sagði Frakka og Þjóðverja sömuleiðis hafa lagt sitt af mörkum, án þess þó að skýra það frekar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert