Sameinuðu þjóðirnar hafa náð að flytja hjálpargögn til hluta þeirra sem hafast við á svæði sem er undir stjórn uppreisnarmanna í Austur-Kongó. Alls eru um 250.000 manns innlyksa á svæðinu en fólkið hefur misst heimili sín í átökum uppreisnarmanna við stjórnarherinn í landinu.
Fram kemur á fréttavef BBC að þetta séu hjálpargögnin sem hafa borist til íbúanna í viku, en fólkið situr fast á svæðum sem eru undir stjórn hershöfðingjans Laurent Nkunda.
Hjálpargögnin voru flutt frá Goma á sjúkrahús sem er 88 km norður af borginni, en það er eina sjúkrahúsið á svæðinu.
Utanríkisráðherrar Frakklands og Bretlands hafa heimsótt svæðið og þeir segja að það sé nauðsynlegt að gripið sé til tafarlausra aðgerða til að binda enda á neyðarástandið.
Í síðustu viku laut stjórnarherinn í gras fyrir hersveitum Nkunda á svæðum sem liggja nærri Goma.