Fyrstu tölur í bandarísku forsetakosningunum hafa nú verið birtar og eru þær Barack Obama í vil. Hann hefur tryggt sér meirihluta atkvæða í þorpinu Dixville Notch í New Hampshire.
Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1968 sem demókrati hlýtur meirihluta í Dixville Notch en kosningar hófust þar upp úr miðnætti í gærkvöldi að staðartíma. Kosningaþátttaka í þorpinu var 100 prósent. Tæplega 100 manns búa í Dixville og var 21 á kjörskrá. Obama hlaut 15 atkvæði en McCain 6. Íbúar þorpsins hafa í 60 ár opnað kjörstaði á miðnætti aðfaranótt kjördags og birt tölur fyrstir allra.
Kjörmenn eru alls 538, flestir í Kaliforníu eða 55. Frambjóðandi þarf að tryggja sér atkvæði 270 kjörmanna til að komast í Hvíta húsið. Ef frambjóðandi fær meirihluta atkvæða í ríki þá fær hann jafnframt alla kjörmennina í ríkinu.
Eftir einhverja lengstu og dýrustu kosningabaráttu í sögu Bandaríkjanna benda skoðanakannanir til að Barack Obama verði kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna. John McCain, frambjóðandi repúblikana, segist þó ætla að berjast til síðasta manns.
Talið er að um 130 milljónir manna greiði atkvæði. Gangi það eftir, yrði það mesta kosningaþátttaka frá árinu 1960. Mest er spennan talin verða í sex ríkjum, Flórída, Missouri, Indiana, Norður-Karólínu og Ohio.