Sonur Bin Ladens óskar eftir pólitísku hæli á Spáni

Einn af sonum Osama Bin Laden, leiðtoga al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, hefur óskað eftir því við spænsk yfirvöld að honum verði veitt pólitískt hæli í landinu.

Omar Osama Bin Laden, sem er 27 ára, fór fram á þetta þegar hann millilenti á Barajas flugvellinum í Madrid, en hann átti bókað flug frá Egyptalandi til Marokkó.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvers vegna hann fór fram á þetta.

Omar Osama Bin Laden hefur lýst sjálfum sér sem friðarsinna. Fyrr á þessu ári var honum bannað að búa í Bretlandi með breskri eiginkonu sinni, sem er 52ja ára gömul.

Fram kemur í spænska dagblaðinu El Pais að málið muni fá flýtimeðferð hjá spænskum yfirvöldum.

Að sögn talsmanns spænska innanríkisráðuneytisins var Omar með sádi-arabískt vegabréf.

Hann býr í Kaíró ásamt eiginkonu sinni, Zaina Alsabah-Bin Laden. Hún gekk áður undir nafninu Jane Felix-Browne.

Þess má geta að Osama Bin Laden á 19 syni.


Osama Bin Laden á 19 syni.
Osama Bin Laden á 19 syni. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert