Obama: Breytingar hafa knúið dyra

Barack og Michelle Obama ásamt dætrum sínum, Malia og Sasha …
Barack og Michelle Obama ásamt dætrum sínum, Malia og Sasha í Chicago í morgun. Reuters

Barack Obama, sem kjörinn var 44. forseti Bandaríkjanna í nótt, ávarpaði 65 þúsund stuðningsmenn sína í almenningsgarði í miðborg Chicago og sagði að breytingar hefðu knúið dyra í Bandaríkjunum. Þeir sem hefðu efast um að Bandaríkin væru staður þar sem allt væri mögulegt og einnig efast um afl lýðræðisins hefðu nú fengið svar.

„Ég var aldrei líklegasti frambjóðandinn í þetta embætti. Við byrjuðum ekki með fullar hendur fjár og margar stuðningsyfirlýsingar. Framboð okkar hófst ekki í sölum Washington. Það hófst í bakgörðunum í Des Moines og stofum og veröndum Charleston."  

Obama lagði áherslu á að allir Bandaríkjamenn, af hvaða kynþætti þeir væru, og hvaða trúarbrögð og skoðanir sem þeir aðhylltust, og ríkin 50, hvort sem þau kysu repúblikana eða demókrata, mynduðu saman Bandaríkin. 

Hann sagði, að þótt menn gleðjist í nótt muni gríðarleg verkefni mæta þeim þegar þeir vakna á morgun. Hann sagði, að ekki muni takast að ljúka þeim verkefnum á einu ári og jafnvel ekki á einu kjörtímabili. „En ég hef aldrei verið vonbetri um að við munum ná á leiðarenda," sagði Obama.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert