Ættingjar Baracks Obama í Kenýa fögnuðu innilega þegar Obama var lýstur sigurvegari í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nótt. Fólkið söng: „Við erum á leið í Hvíta húsið."
Faðir Obama var Kenýamaður og Sarah, stjúpamma næsta forseta Bandaríkjanna og hálfsystkini föður hans búa í þorpinu Kogelo í vesturhluta Kenýa. Lögregla var með talsverðan viðbúnað í þorpinu til að koma í veg fyrir að fjöldi fréttamanna og annarra gesta kæmist að fjölskyldunni.
En eftir að sigur Obama var tryggður kom gamla konan og fleiri ættingjar Obama út til að fagna.
Mwai Kibaki, forseti Kenýa sagði að sigur Obama væri afar þýðingarmikill dagur fyrir landið. Lýsti hann því yfir, að fimmtudagurinn yrði almennur frídagur í tilefni af kosningasigri Obama.