Bann við hjónabandi samkynhneigðra var samþykkt í atkvæðagreiðslu í Kaliforníu í dag. Aðeins nokkrir mánuðir eru síðan það var leyft og í kjölfarið gengu þúsundir samkynhneigðra para í það heilaga.
Tillagan, sem vestanhafs gekk undir nafninu Proposition 8 (ísl. tillaga 8), var samþykkt með 52,1% atkvæða. Í henni var mælst til þess að málsgreininni „Aðeins hjónaband milli karls og konu er gilt og löglegt í Kaliforníu“ yrði bætt í stjórnarskrá ríkisins.
Margir íhaldssamir hópar töluðu óspart fyrir tillögunni til að snúa við ákvörðun hæstaréttar frá maí sl. um að lögleiða hjónaband samkynhneigðra. Sjálfur hafði hæstirétturinn snúið við ákvörðun þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2000 þar sem 61% kjósenda vildi að hjónaband gæti aðeins verið milli karls og konu.
Með nýjustu ákvörðuninni ríkir mikil lagaleg óvissa um þau 18.000 samkynhneigðu pör sem gengu í hjónaband þá mánuði sem það var leyfilegt. Sem dæmi má nefna að þáttastjórnandinn Ellen DeGeneres giftist kærustu sinni, leikkonunni Portiu de Rossi, í ágúst.
Fjöldi frægra Hollywood stjarna hafði opinberlega stutt þá hópa sem hvað ötullegast börðust gegn tillögunni, t.d. Brad Pitt, Steven Spielberg og Ellen DeGeneres. Gáfu sumir myndarlegar upphæðir í baráttuna, eða allt að 12 milljónir króna.