Mandela fagnar kjöri Obama

SIPHIWE SIBEKO

Nelson Mandela, fyrrum forseti Suður-Afríku, segir að kjör Baracks Obama sem forseta Bandaríkjanna sýni að allir geti látið drauma sína um að breyta heiminum rætast. Þetta kemur fram í bréfi sem Mandela hefur ritað til Obama.

Segir Mandela að sigurinn sýni að draumar um að breyta heiminum til hins betra geti ræst. Mandela, sem er níræður að aldri og var fyrstur blökkumanna til þess að stýra S-Afríku, hvetur Obama til þess að styðja frið í heiminum og öryggi íbúa. Segist hann treysta því að Obama muni styðja baráttu gegn fátækt og sjúkdómum í forsetatíð sinni.

Mandela leiddi fyrstu lýðræðiskjörnu stjórn S-Afríku á árunum 1994-1999 eftir að hafa setið í fangelsi í 27 ár fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstjórninni.

Obama hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á leiðtoganum aldna og á níræðisafmæli Mandela sagði Obama í skilaboðum til afmælisbarnsins að það væri fyrir tilstilli Mandela sem hann tryði því að „við þurfum ekki að sætta okkur við heiminn eins og hann er".

„Þegar ég heimsótti Suður-Afríku fyrir nokkrum árum fékk ég tækifæri til þess að fara til Robben Island (þar sem Mandela sat í fangelsi) og standa við klefann þinn og finna hugrekki þitt, framtíðarsýn þína og sannfæringu," sagði Obama í skilaboðum til Mandela í júlí í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert