McCain lofar Obama

John McCain lofaði mótframbjóðanda sinn, Barack Obama, þegar hann játaði ósigur í dramatískri ræðu skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir. Lýsti McCain Söruh Palin sem einum besta frambjóðendanum sem hann hefði kynnst.

McCain sagði komið að lokum mikils ferðalags. Bandarikjamenn hefðu talað skýrri röddu. Hann hefði hringt í Obama, sem hefði tekist að höfða til vonartilfinngar margra Bandaríkjamanna.

Sagðist McCain bera mikla virðingu fyrir þolgæði Obama. Kosningarnar, sem væru sögulegar, hefðu mikla þýðingu fyrir blökkumenn.

Frambjóðandinn kvaðst ávallt hafa litið svo á að Bandaríkin væru land tækifæranna þeim sem hefðu dug og kraft til að sækja fram.

Þjóðin hefði ferðast um langan veg frá gömlu syndunum sem settu blett á sögu hennar. Fyrir öld hefði Teddy Roosevelt repúblikanaforseti ollið mikilli hneykslun þegar hann bauð blökkumanninum Booker T. Washington til kvöldverðar í Washingon. Sagði McCain Bandaríkin annað land í dag, þróun sem kjör Obmas væri staðfesting á. 

Má skjóta því hér að þekktur blaðaritstjóri í einu Suðurríkjanna lét þess þá getið í leiðara að boð Roosevelts vitnaði um mikið „smekkleysi forsetans“.

McCain sýndi drengskap í ræðu sinni og sagði Obama hafa unnið mikið afrek og að amma hans, Madelyn Dunham, sem lést í gær, hefði verið mjög stolt af honum í dag. Hann sendi Obama samúðarkveðjur sínar. Dunham, sem væri nú á betri stað, væri nú stolt af manninum sem hún ól.

McCain vék því næst að þeim djúpstæðu erfiðleikum sem standa að bandarísku þjóðfélagi og sagði kominn tíma til að þjóðin sameinaðist, sú stund væri runninn upp að bilið á milli ólíkra þjóðfélagshópa skyldi brúað.


„Við börðumst til síðasta blóðdropa, mistökin voru mín, ekki ykkar,“ sagði McCain, sem sagði leiðina hafa verið erfiða frá upphafi.

Þá þakkaði hann fjölskyldu sinni stuðninginn, álagið á fjölskyldur væri oft ekki síðra en álagið á frambjóðendur.

McCain uppskar svo mikið lófaklapp þegar hann fór fögrum orðum um Söruh Palin, sem væri einn besti frambjóðandinn sem hann hefði séð.

Sarah Palin hlustar á John McCain halda ræðu í Phoenix …
Sarah Palin hlustar á John McCain halda ræðu í Phoenix eftir að úrslit kosninganna voru ljós. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert