Kjörstöðum var lokað í mörgum ríkjum á austurhluta Bandaríkjanna klukkann 1 að íslenskum tíma og er Barack Obama spáð sigri í mörgum þeirra. Samkvæmt spám bandarískra sjónvarpsstöðva er Obama búinn að tryggja sér 103 kjörmenn en John McCain 39. 270 kjörmenn þarf til að sigra.
Obama er spáð sigri í Massachusetts, Maryland, Maine, District of Columbia, New Jersey, New Hampshire, Delaware, Washington DC, Pennsylvaníu og Illinois en McCain var spáð sigri í Oklahoma og Tennessee. Fox treystir sér ekki til að spá strax fyrir um úrslit í Alabama og Missouri.
Allt stefnir í að demókratar fái 52 sæti af 100 í öldungadeild Bandaríkjaþings og vinni þrjú sæti. Það vakti talsverða athygli að Joe Biden, varaforsetaefni Obama, var endurkjörinn sem öldungadeildarþingmaður fyrir Delaware. John Kerry var endurkjörinn fyrir demókrata í Massachusetts og mun sitja í öldungadeild Bandaríkjaþings fimmta kjörtímabilið í röð.
Þá vann frambjóðandi demókrata sigur á Elizabeth Dole, öldungadeildarþingmanni repúblikana í Norður-Karólínu. Einnig tapaði John Sununu, sem verið setið í öldungadeildinni fyrir repúblikana í New Hampshire, fyrir frambjóðanda demókrata.
Samkvæmt spám hafa demókratar einnig unnið öruggan sigur í kosningum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.