Svipmynd: Maðurinn frá Kogelo skekur heiminn

Barac Obama II fagnar sigrinum,
Barac Obama II fagnar sigrinum, Reuter

Fólkið söng og dansaði á götum úti í þorpinu Nyangoma Kogelo í Keníu, ættarslóðum Barack Obama yngra í Afríku, þegar ljóst var orðið hvert stefndi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. „Jakogelo Yiengo Piny!“hrópaði það án afláts: Til heiðurs þeim frá Kogelo sem skekur heiminn!

Og víst skekja tíðindin um kosningu Barack Hussein Obama sem fertugasta og fjórða forseta Bandaríkja Norður-Ameríku heimsbyggðina alla. Hún hefur orðið vitni að ótrúlegu ævintýri - ævintýri sem á ekki að gerast nema í eiginlegum ævintýrum. Sonur svarts Afríkumanns sem í æsku gætti geita í litlu þorpi í Kenía er orðinn forseti voldugasta ríki heims, og fyrsti svarti forsetinn í allri sögu ríkisins.

Barack Obama er lifandi sönnun þess að allt er mögulegt í henni Ameríku. Samt gat þetta kannski aðeins gerst af því að nýi forsetinn á sér allt annars konar rætur en fyrirrennarar hans og sprottinn úr fjölþjóðlegra umhverfi en þeir flestir. En sjálfur þarf maðurinn auðvitað að hafa það til brunns að bera sem gerir honum kleift að sigrast á öllum þeim þrautum og hindrunum sem hetjunum er ætlað að gera í alvöru ævintýrum.

Foreldrar ólíkra heimsálfa

Barack Hussein Obama II fæddist á Hawai hinn 4. ágúst 1961. Í föðurætt er hann kominn frá Afríku, faðir hans Barack Obama eldri fæddist og ólst upp í litla þorpinu í Kenía sem segir frá hér á undan. Hann gætti geita á ungra eldri en faðir hans var í þjónustuliði breskra ábúenda.

Móðir Baracks, Ann Dunham, ólst upp í smábæ í Kansas. Faðir hennar vann við olíuborun í kreppunni miklu, en skráði sig síðan í herþjónustu í síðari heimstyrjöldinni í kjölfar Pearl Harbor árásarinnar. Hann marseraði um meginland Evrópu með herjum Pattons. Kona hans og amma Obama starfaði á meðan við hergagnaframleiðslu. Að stríði loknu gátu þau nýtt húsnæðiskerfi eftirstríðsáranna til að koma þaki yfir höfuð sér og fluttu til Hawai.

Þar í háskólanum hittust foreldrarnir, Barack eldri, sem hlotið hafði styrk til náms í skólanum og Ann, sem var þar einnig við nám. Skömmu eftir að Obama fæddist hlaut faðir hans skólastyrk við Harvard en það voru engin efni til að fjölskyldan gæti öll farið svo að hann fór einn síns liðs. Hann sneri síðan aftur til Kenía en fjölskyldan varð eftir í Bandaríkjunum og þegar Obama yngri var 2ja ára skildu foreldrarnir. Obama hitti föður sinni aðeins einu sinni eftir þetta en hann fórst í bílslysi í Kenía árið 1982.

Móðir Obama giftist aftur Lolo Soetoro, Indónesa, og fluttist fjölskyldan til heimalands hans árið 1967. Bæði faðir Obama og stjúpfaðir hans voru múslimar en Obama sótti kristna skóla í Jakarta og var þar til 10 ára aldurs. Þá sneri hann aftur til Honolulu til að búa hjá móðurforeldrum sínum. Móðir hans kom aftur til Hawai 1972 og dvalist þar fáein ár áður en hún hélt aftur til Indónesíu til að ljúka vettvangsrannsóknum í tengslum við doktorsverkefni sitt. Hún lést 1995 af völdum krabbameins.

Nam í bestu menntastofnununum

Obama hélt til New York og lagði þar stund á stjórnmálafræði við Columbia-háskólann, en hélt að svo búnu til Chicago þar sem hann sinnti samfélagsþjónustu um þriggja ára skeið. Hann fékk síðan inngöngu í lagadeild Harvard-háskólans árið 1988 og var fyrsti svarti maðurinn til að vera í forsvari fyrir því virta tímariti Harvard Law Review.

Eftir námið í Harvard sneri hann aftur til Chicago þar sem hann lagði stund á lögmannsstörf, einkum á sviði mannréttinda- og jafnréttismála. Hann sat sem öldungadeildarþingmaður á ríkisþinginu í Illinois frá 1996 til 2004 og var síðan kjörinn öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþing fyrir Illinois með yfirburðum árið 2005, ekki löngu eftir að honum skaut upp á stjörnuhimininn með ræðu sem þar sem hann blés eldmóði í brjóst flokksbræðra sinna á flokksþingi demókrata 2004.

Vegur Barack Obama sem öldungardeildarþingmanns hefur vaxið hratt en hann telst með róttækustu þingmönnum í deildinni en nýtur virðingar og var talinn ellefti valdamesti öldungardeildarþingmaðurinn á síðasta ári samkvæmt árlegri úttekt sem þar er gerð.

Suðurríkjaforseti fjarskyldur ættingi?

Obama kynntist konu sinni Michelle Robinson í júní 1989 þegar hann réðst sem sumarstarfsmaður á lögfræðiskrifstofu í Chicago þar sem Michelle vann og var hún fengin til að leiðbeina honum. Þau trúlofuðust 1991 og giftust ári síðar. Þau eiga tvær dætur, Malia Ann, fædd 1998, og Natasha, fædd 2001.

Bandaríkjaforseti á sjö hálfsystkin, þar af sex á lífi, í föðurætt í Kenía, og hálfsystur í móðurætt í Indónesíu. Móðuramma hans, Madelyn Dunham, sem ól hann upp að verulegu leyti, lést í hárri elli 2. nóvember sl. Stjúpamma er á lífi í Kenía, 86 ára að aldri. Obama hefur í bók sinni Dreams from My Father rakið ættir sínar í móðurlegg til indíána og fjarskyldur ættingi gæti verið Jefferson Davis, forseti Suðurríkjanna í bandarísku borgarastyrjöldinni.

Það væri eftir öðru í þeim suðupotti kynþátta sem Bandaríkin eru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka