Kona, sem neitaði að þiggja umönnun sjúkraliða á hjúkrunarheimili í Noregi, fékk alvarleg legusár og gréri að lokum föst við rúmdýnuna. Héraðslæknirinn í Ósló segir við norska útvarpið, að konan hafi verið í fullum rétti að afþakka umönnunina en ætlar samt að láta rannsaka málið.
Konan hafði legið á hjúkrunarheimilinu í mörg ár og neitaði ávallt að þiggja aðstoð við þvotta og aðra umönnun. Að sögn norska ríkisútvarpsins NRK gréri konan á endanum föst við rúmdýnuna og varð að flytja hana á Akershus háskólasjúkrahúsið þar sem dýnan var fjarlægð með aðgerð.
Haft er eftir Petter Schou, héraðslækni í Ósló, að það hafi verið réttur að afþakka aðstoð. Hvorki sjúkrahúsið né hjúkrunarheimilið sendu hins vegar tilkynningu um málið til héraðslæknisembættisins.