Kæra bann á hjónavígslum samkynhneigðra

Mótmælt í Kaliforníu
Mótmælt í Kaliforníu Reuters

Í kosningunum í Bandaríkjunum á þriðjudag kusu íbúar Kaliforníu einnig um breytingartillögu þess efnis að hjónavígslur fólks af sama kyni yrðu bannaðar samkvæmt stjórnarskránni. Tillagan var samþykkt en nú liggja fyrir kærur vegna hennar.

Mótmælendur og embættismenn borgaryfirvalda í Los Angeles og San Francisco vilja nú fyrir hæstarétt í Kaliforníu með þeim rökum að tillagan feli í sér algera endurskoðun á stjórnarskrá landsins og sé mun víðtækari en venjulegar breytingartillögur.

„Megintilgangur stjórnarskránnar er að vernda hag minnihlutahópa fyrir meirihlutanum,“ sagði Elizabeth Gill, lögfræðingur hjá Samtökum um réttindi bandarískra borgara (ACLU) sem er einn þeirra hópa sem hyggjast berjast gegn banninu.

Tillöguna samþykktu 52,5 prósent kjósenda á móti 47,5 prósentum sem voru á móti. Bannið gengur í gildi aðeins sex mánuðum eftir að hæstiréttur Kaliforníu nam úr gildi bann við hjónavígslu fólks af sama kyni. Lagaleg staða þúsunda hjóna af sama kyni sem hafa gengið í hjónaband í Kaliforníu síðan í júní er nú óljós þó fulltrúar yfirvalda hafi fullyrt að hjónaböndin verði áfram í fullu gildi.

Þúsundir hafa mótmælt á götum Los Angeles og víðar vegna niðurstaðna kosninganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert